Spánn 2008 Costa Ballena

31. mars mánudagur 

Í dag sef ég út til kl 12:30 en þrátt fyrir það er hóstinn og kvefið ekki farið.

Þegar ég vakna eru mamma og pabbi búin að taka mest allt dótið saman og svo er bara farið upp í bíl og sagt bless við Costa del Sol. Keyrum í rúmlega 2 klst í mjög fjölbreyttu og fallegu umhverfi. Fyrst meðfram sjónum og svo upp í fjöllin og að lokum í gegnum grösugar sveitir þar sem kýr eru á beit og landslagið minnir minn á það þegar maður keyrir í gegnum Rangárvallasýsluna. Flestir eru að rækta eitthvað sem okkur grunar að sér einhver vinviður en það lýtur út eins og uppþornað og allir hafi gleymt að vökva.

Komum svo loks á áfangastað. Glænýtt og glæsilegt hótel sem var tekið í gagnið fyrir 3 vikum. Við fáum svokallaða Junior Suite þe. hótelherbergi með stofu þar sem eru 2 rúm fyrir okkur Hjört Björn. Allt mjög flott og risastórar svalir. Hrikalega næs. Förum í túr um hótelið á leiksvæðið sem er líka nýtt og flott og krakkasundlaugina sem við HB þurfum aðeins að prufa og endum á því að verða rennblautir og þurfum því að fara upp að skipta.  Í kvöld borðum við svo í matsalnum þar sem er hlaðborð og allskonar matur í boði. Þarna eru mest Íslendingar sem komu með sömu vél og við út og eru að fara heim á morgunn. Þetta lýtur allt saman glæsilega út leikjtækjasalur með þythokkí fótboltaspilum og billjardborðum. Ég hlakka síðan til að taka upp golfkylfurnar mínar með pabba. Sennilega kíkjum við á par 3 golfvöllinn á morgunn.  Fann þessa frábæru mynd á netinu sem tekin var á Liverpool-Everton leiknum í gælr Gerrard stekkur hér hátt upp.

Gerard stekkur 30 mars


Spánn 2008 Costa Del Sol

   

Sunnudagur 30. mars 

Vaknaði um 8 leytið í morgunn sem var þá reyndar um 9 leytið þar sem það hafði skipt yfir í sumartíma hér á Spáni í nótt. Þetta gera menn víst til að geta notið sumardaganna aðeins lengur og hafa þá birtuna lengur. Morguninn í morgunn var ekki betri en síðustu morgnar. Vakna í miklu hóstakasti sem stendur meira og minna yfir í 1-2 klst. Ég reyni að drekka vatn en það virkar ekki mikið. Nú var ákveðið að þetta gengi ekki lengur og í apótek skildi halda til að fá hóstalyf. Ég hef tekið inn panodil þegar ég er með hita en það slær ekki á hóstann. Hér eru flestar verslanir lokaðar á sunudögum svo pabbi þarf að finna apótek með neyðaropnun hér töluvert frá. Henn skellir sér þangað og kemur til baka með hóstasaft, hitastillandi og strepsil brjóstsykur. Var alveg heillaður því stelpan í apótekinu var svo sæt og talaði svo góða ensku að hann keypti og keypti. Fór svo í búðina við hliðina á og keypti þar grillaðan kjúlla sem hann kom með heim handa okkur. Gott að fá smá kjöt eftir endalaust pizzu og hamborgaraát.

Mamma hafði farið á svalirnar og grillað sig soldið enda mjög gott veður í dag. Hún og pabbi eru að slást um sömu bókina, Ösku og láta sig hverfa með hana. Sjálfur er ég að lesa bókina Ballið á Bessastöðum auk þess sem ég les á kvöldin lestrarbókina fyrir skólann og geri orðabók.  Við ákveðum að best sé að ég sé alveg inni í dag. Fór bara út úr íbúðinni þegar hreingerningarkonan kom að þrífa. Það er þrifið og búið um hjá okkur daglega og ekki veitir af. Td. í morgunn þá ákvað HB að fara með kaffabollann sinn í herbergi eins og mamma og pabbi gera og missti svo allt í rúmið. Já Hjörtur Björn fór að drekka kaffi núna á föstudaginn. Smakkaði fyrst Kaffi Latte hjá mömmu hérna á kaffihúsinu og vildi varla leggja það frá sér. Svo næsta morgunn heimtaði hann kaffi í bolla sem hann og fékk og drekkur með bestu list. Mamma er mjög stollt af þessu og telur þetta vera í genunum þar sem hún byrjaði líka mjög snemma að drekka kaffi. Fékk kaffi í pelann að sagt er en það var með miklum sykri og mikilli mjólk. Hjörtur Björn sleppir öllu sykursulli og sennilega bara tímaspursmál hvernær hann fer að drekka svart kaffið.

Eftir matinn fara mamma og Hjörtur Björn á ströndina að baka sig enn frekar. HB sofnar víst fljótt í kerrunni þannig að mamma getur slakað á. Þegar þau koma til baka fer pabbi út að horfa á leikinn Liverpool – Everton á einhverjum sportbar. Mínir menn í Liverpool sigra þennan leik 1-0 og vinur minn hinn spænski Torres skorar. Skemmtileg tilviljun þegar maður er á Spáni. Í kvöld er svo síðasta kvöldmáltíðin hér á Costa del Sol, kvöldmáltíð úr mallinu sem mamma kemur með heim. Kvöldið er síðan bara rólegt lesið verið í tölvunni og horft á Simpsons sem bjarga mér alveg í þessum veikindum.

Við misstum því miður af fermingarveislu í dag þar sem hún Vala frænka mín var að fermast. Verst að geta ekki verið allsstaðar. Til hamingju með ferminguna Vala vona þú hafir nú átt góðan dag. Nú er bloggsíðan mín farin að breiðast út til vina og vandamanna kominn með 2 komment á síðuna frá Disu og Unnari og svo ömmu. Gaman af því svo endilega sendið komment.

Laugardagur 29. mars

Aðeins kaldara í dag amk. framan af. Vakna í miklu hóstakasti og virðist ekki geta náð þessari pest úr mér. Við mamma byrjum í dag á bloggsíðunni um dvölina á Spáni. Loksins.  Það tekur heillangan tíma og við verðum einhverja stund að fullklára þetta.  Fáum að vita í dag að við fáum herbergið á Costa Ballena á mánudaginn þannig að þann dag munum við keyra þangað. Við eigum því bara eftir 2 daga hér á Costa Del Sol.  Hjörtur Björn sefur til kl 12:30. Hann var eitthvað slappur í nótt en vaknar svo bara nokkuð hress. Ákveðum að nýta daginn í dag að fara í bíltúr í Nike outlet-ið og athuga með Tivolið.

Outletið minnir helst á outlet complex í USA.  Líður ekki vel á leiðinni en er þó ekki með mikinn hita þar sem ég er mældur mjög reglulega. Alltaf með rassamælinn á lofti hahaha. Ég fæ buxur og Tiger Woods bol í Nike outletinu alltaf heppinn. En líður ekki vel þannig að pabbi fer með mér í bílinn.

Ég hressist nú ansi mikið við þegar við tölum um Tívoli ferðina. Skellum okkur þangað. Mamma og pabbi eru að koma þangað í annað sinns ("reynsluboltarnir") en pabbi man alls ekki eftir því. Tívolíferðin var mjög skemmtileg. Tívolíið er á stóru svæði. Við byrjuðum á skotboltum þar sem pabbi var næstum því búinn að kasta þremur boltum í gat en því miður mistókst síðasta kastið þannig ekki fengum við stóran bangsa þarna.  Við fóurm svo í mörg tæki. Hjörtur Björn var að fara í tívolí í fyrsta sinn og fílaði það vel. Ég fór yfirleitt með honum en stundum mamma og pabbi. Ég  fór í flest tæki. Síðasta tækið sem ég fór í var ristastór rússibani sem við pabbi fórum saman í.  Við fórum rólega af stað svo kom fyrsta brekkan og þá var eins og við pompuðum niður og ég missti nærri magann. Alveg ótrúlegt. Ég fór líka í fallturn, parísarhjól allskonar bíla og smátæki.  Með þessu borðaði ég auðvitað Candy floss sykur til að fá tívolí stemminguna beint í æð. Eftir rúma 2 klst fórum við svo heim eða á okkar heimasvæði. Fórum niður á strandgötuna og fengum okkur að borða. Ég er búinn að vera ansi listarlaus en pizzan heillar alltaf.

Að þessu sinni vorum við ekki nógu heppin með stað. Pizzurnar ekki góðar og ekki heldur pastað sem mamma fékk sér. Mamma og pabbi fengu sér fyrst snigla og þeir voru víst góðir.

Komum upp á hótel um 8 leytið og tökum smá stund í leikherberginu. Svo er tekið til við bloggsíðuna að skrifa það sem á daga okkur hefur drifið. Hjörtur Björn horfir enn og aftur á Söngvaborg sem hann hefur horft á svona ca. 100x síðan við komum hingað. Farinn að dansa betur en Sigga Beinteins í dönsunum. Masi er samt uppáhaldið hjá honum og hann kallar og kallar á.  Búinn að setja myndir á netið, að sjálfsögðu flestar af mér ;)

Föstudagur 28. mars

Enn soldið slappur. Í dag er alveg frábært veður sama sólin og minna rok.

Erum úti í sólbaði hér í sundlaugargarðinum, kasta bolta á milli og hafa það gott í 2-3 tíma þá er ég búinn að fá nóg og er inni í slökun. Mamma fer í göngutúr með HB út í búð og svæðið hér í kring.

Loksins er internetið hjá okkur að skána. Erum búin að vera á leiðinni að koma upp bloggsíðu en ekki gengið vegna lélegs sambands en það er vonandi að skána og bloggsíðan mín verður að veruleika.

Í kvöld treysti ég mér ekki að fara út á veitingastað þannig að pabbi fer út í búð og kaupir Burger king fyrir okkur HB. Hann og mamma fá sér rétt sem kallast kebab

Í kvöld er svo stóri þvottadagurinn hjá mömmmu sem þær hvorki meira né minna en 15 boli af okkur feðgum sem betur fer fyrir hana flesta af Hirti Birni.

Fimmtudagur 27. mars

Vakna slappur í morgunn og hósta og hósta. Þetta skánar þó þegar líður á á morguninn.

Úti er búið að bera út billjard borð, fótboltaspil og borðtennisborð. Við kíkjum á það og við pabbi tökum nokkra leiki. Svo setjumst við familyan í alveg frábæra stóla þar sem eru eins og hálft hengirúm.

Við HB erum að hlusta á MP3 spilara á meðan mamma og pabbi lesa í bók. Voða notalegt.

Er annars soldið slappur og við erum bara inni í rólegheitum. Röltum í búðina enn og aftur að kaupa vatn.

Ég fæ þar nýja skó, buxur og peysu er alveg svakalega heppinn. Í kvöld förum við út að borða á veitingastað við ströndina og keyrum strandgötuna sem virðist vera alveg endalaus.

Við fáum okkur pizzu og ég er alveg búinn á því og vill komast heim sem fyrst.

Sáum reyndar alveg frábæran spánar bol merktan Torres sem ég verð að fá síðar.

Miðvikudagur 26. mars

Enn er sól og blíða en nokkuð rok. Erum aðeins með roða eftir strand daginn í gær og ákveðum því að slaka á sólböðum. Erum búin að vera að glugga í túristabæklingum og stefnan tekin á fiskasafnið.

Keyrum af stað sem leið liggur upp í fjöllin og svo aftur niður nærri niður á strönd.

Fiskasafnið er staðsett á mjög skemmtilegum stað sem er einskonar smábótahöfn sem í eru fullt af verslunum og veitingastöðum. Þarna er líka fullt af bátum og menn stökkva á okkur til að bjóða bátsferðir sínar. Okkur finnst aðeins of mikið rok í það í dag og ekki víst hvernig HB yrði um borð á svona skipi. Fiskasafnið var svona týpískt svipað og það sem er á Myrtle Beach en heldur minna.

Sjáum fullt af flottum fiskum af ýmsum stærðum og gerðum og líka eina risastóra skjaldböku.

Eftir þetta með viðkomu á leiksvæði fyrir HB fáum við okkur að borða hamborgara sem gera sig út fyrir að vera amerískir en mistekst aðeins bara svona rétt melló. Meðan við bíðum eftir matnum förum við mamma að sölukonu þarna sem var að selja derhúfur merktar með nafni. Ég fæ að velja mér húfu sem síðan er merkt Siggi Tommi. Glæsileg "eldhúfa".  Eftir matinn förum við pabbi svo í minigolfiið sem er hérna á sama stað á meðan að mamma og Hjörtur Björn rölta um þennan stað.  Mini golfið var í svona sjóræningjastíl og það er skemmst frá því að segja að ég næ að vinna pabba. Við vorum alveg jafnir fram að lokaholunni þar sem hann fór svo á 7 höggum en ég á 3 höggum. Ekki slæmt að vinna gamla manninn sem vill komast sem fyrst aftur í minigolf til að reyna að vinna mig. Röltum svo aðeins meira um svæðið og endum á því að ég fer í svona einskonar risastóra hoppurólu.  Þetta var svona trampólín sem maður hoppaði á og var í belti fest í teygjur þannig maður gat hoppað alveg svakalega hátt og farið í hringi í loftinu. Þetta var geðveikt skemmtilegt og eftir þetta fórum við svo heim. Þá tekur Garmin tækið upp á því að frjósa og við náum ekki að enduræsa þannig að við förum  bara heim eftir minni. Fyrst tökum við smá bíltúr niður í Torremolinos sem var þarna rétt hjá. Pabbi og mamma voru í útskriftarferð fyrir 17 árum og þar var allt greinlega 17 árum eldra en á því svæði sem við erum á. Sama hvað þau keyrðu þá mundu þau ekkert hvað hótelið þeirra hét  eða hvað þau hefðu verið að gera þarna. Komumst að lokum heim heil á höldnu og slöppum vel af eftir þennan góða dag sem var einn af þeim bestu sem ég hef upplifað.  Endum daginn hér á hótelinu þar sem að mamma eldar Carbonara pasta hér heima. Eitt finnst mér merkilegt það er hversu mikið vatn við drekkum hér á Spáni. Mikið meira en heima á Íslandi og samt þurfum við að borga fyrir það hérna.   Með kvöldinu finn ég að ég er að verða veikur fer að hósta mikið og líður ekki vel.

 

Þriðjudagur 25. mars

Mega sól og blíða í dag og betra veður en í gær. Sennilega um 25 stiga hiti og ekki rok amk ekki svona framan að. Förum í innifalda morgunnmatinn í sama snarhvíta salnum með hvítu og glæru design stólunum.

Hótelið gerir út á það að vera barnvænt með góða barnaaðstöðu en mér finnst matsalurinn ekki beint vera barnvænn svona svakalega hvítur. Borðið okkar lítur út eins og svínastía eftir að við erum búin að borða þar.  Staðurinn fer líka eitthvað illa í HB sem aftur sýnir sínar verstu hliðar og nú er farið með hann upp til að skammast sín á meðan við mamma klárum kaffið úti á terrasinum.

Í dag er stefnan tekin á ströndina. Löbbum sem leið liggur eða því sem næst.

Förum framhjá heimilislausum undir kræklóttum stíg hjá brúnni og sjáum að við fórum vitlausu megin. Komumst þó heil á höldnu niður á strönd. Plötntum okkur þar niður á góðan stað.

Karlmenn fara í boltaleiki og kastalagerð á meðan  kvennfólkið liggur og les. Afskaplega næs.

Við feðgar förum aðeins með tásurnar í kaldan sjóinn og HB reynir að hlaupa eins langt í burtu og hann getur þegar hann kemst í tæri við ískalt vatnið.

Við ströndina er töluvert af fólki og skiptast á veitingastaðir og túristabúðir.

Eftir leik og legu í 2-3 klst. tökum við okkur upp og fáum okkur pizzu að borða á einum veitngastaðnum.

HB missir reyndar af því þar sem hann sofnar þegar þangað er kominn. Eftir matinn höldum við áfram eftir strandgötunni kaupum sólgleraugu og úr af ágengum götusölum. Eftir að mamma setti upp fínu Armani sólgleraugun var eins og búið væri að merkja okkur "þessi kaupir drasl af götusölum" og gerðust þeir enn ágengari. Fannst ekki tiltökumál að setjast hjá okkur á veitingastaðnum og fara yfir DVD myndir sem teknar voru upp í kvikmyndahúsum á VHS vél.  En maður lærir nú af reynslunni og best að vera ekki að auglýsa það að maður kaupi af þessum gaurum. Ég sé líka þetta glæsilega mótorhjól sem mig langar mikið í en enginn svertingi að selja það.  Löbbum svo til baka heim þar sem við dundum okkur í rólegheitum í tölvunni ofl. Byrjum á því að skella okkur í innisundlaugina hér niðri þar sem hún er heldur heitari en þær sem úti eru. Við förum 3 niður en pabbi fær frí. Ætlum bara að stinga okkur ofan í sem ég og geri en vá hún er djúp ég hélt ég myndi drukkna. Góða sundlaugin jafndjúp 160 cm. Okkur lýst ekki nógu vel á það. Gömul kona í lauginni bendir okkur vinsamlega á að sturtan sé þarna í horninu. Merkilegt að nú sé verið að spá í hvort maður sé nýþveginn eða ekki þar sem það er ekki gert í útisundlauginni. Við hendum okkur í sturtu og þegar við komum úr henni er kominn vörður sem segir að það fari enginn í laugina nema að vera með sundhettu og svo má ekki vera með bolta í henni sem við höfðum ætlað að leika okkur með. Mamma segir að það sé ok þar sem laugin sé of djúp og við ætlum þá bara að fara í pottinn. En það kostar víst 2 Evrur á mann og það mega bara vera 5 ofan í einu í nokkuð stórum potti og ekki vera lengur en 30 mín. Við föllumst á þetta segjumst koma og borga á eftir og förum hlandvolgan nuddpottinn  Fljótlega kemur svo annar vörður til okkur (nota bene þetta sundsvæði er bara ein lítil laug og pottur) og gerir sig eins skíran og hann getur að það kosti 2 evrur á mann í pottinn og það megi alls ekki vera með bolta í honum þó við værum bara við 3 sem í honum vorum. Gerum skiljanlegt að við komum með peninginn á eftir. Okkur er farið að líða eins og glæpamönnum þar sem báðir verðirni þora ekki öðru en að standa við hurðina svona til vonar og vara ef við færum að vera með frekari stæla.  Fljótlega kemur svo gamla konan sem benti á sturtuna og bauð okkur sína sundhettu. Voða sætt en ég vona að hún hafi skilið mömmu að við ætluðum ekki í þessa djúpu laug. Eftir að við fengum svo tvo finnska feðga ofan í til okkar og HB gerði mikið í því að fá boltan ofan í pottinn sem mátti alls ekki fórum við fljótlega. Líka leiðinlegt fyrir finnsku fjölskylduna að geta ekki verið saman í pottinum þar sem við vorum orðin 5 en væri  fyrir ca. 10 manns á Íslandi. Við fórum upp úr eftir styttri sundferð en til stóð. Drifum okkur í sturtu uppi svo við gætum nú farið með peninginn til sundlaugavarðanna þarna niðri eins fljótt og hægt var.. Svona eru nú siðirnir misjanfnir í hverju landi. Er feginn því að þurfa ekki að vera alltaf með sundhettu í sundi heima á íslandi og býst ekki við að við förum aftur í þessa innisundlaug.  Nú erum við einu Íslendingarnir á hótelinu og eigum leikherbergið fyrir okkur þar sem við bræður fáum útrás með kvöldinu. Borðum heima í kvöld ristaðar samlokur í samlokugrillinu sem við tókum með okkur út. Ekki galin hugmynd það. Hitinn hjá okkur í íbúðinni er í meira lagi. Eins og það náist ekki að kæla mikið  en það venst að sofa í nær engu með helst ekkert ofan á sér.

Mánudagur 24. mars

Vaknað nokkuð snemma. Heiðskýrt og sól en aðeins rok svo það verður ekki eins heitt.

Byrjum daginn á því að fara í stóra mallið sem er við hliðina á okkur, Miramar. (takið eftir ekki skrifað með y eins og Myramar í hótelinu)

Þar borðum við traditional english breakfast, röltum um mallið og förum í nær allar hringekjur og leiktæki á göngunum. Við missum það í dótabúðinni þrátt fyrir dýra Evru þar sem við kaupum ma. rafmagnsgítar fyrir HB og alla Simpsons fjölskylduna sem mikið er leikið sér með. Að lokum förum við í matvörubúðina þar sem við stöffum okkur upp af nauðsynjum. Hérna fær maður ekki að fara út á bílastæðin með kerrurnar þannig nú kom sér vel að hafa barnakerru sem er keyrð út drekkhlaðin. Gerum tilraun til að keyra niður á strönd en án árangurs.  Tökum út hótelið og alla aðstöðuna sem þar er í boði útileiksvæði fyrir krakka og inni leikherbergi sem er mjög fín fyrir HB.  Ég er nú í Liverpool gallanum mínum svakalegalega brúnn annað en pabbi sem er bara rauður í framan með mikla bændabrúnku enda af bændum kominn. Með þann hvítasta maga sem sést hefur á Spáni svo menn verða að setja upp sólgleraugu þegar hann er beraður.  Mamman er hinsvegar bara brún og það ekkert smávegis (að hennar sögn;). Siggi Tommi er smá brúnn en tillinn á honum er snarhvítur enda hefur hann ekki fengið að sóla sig neitt. Alltaf geymdur ofan í G-streng. Við feðgar spröngum hér um alla ganga á hótelinu í g-strengs brók einni fata. Pabbi er kominn í gula g-strenginn sem hann keypti hér 1991 þegar hann var hér í útskriftarferð. Í þeirri ferð keypti hann líka síðustu plöturnar sínar sem aldrei voru spilaðar því geisladiskar voru í þann veginn að gleypa markaðinn. Skemmtilegt sögulegt innskot (kom frá mömmu).

Förum í okkar fyrsta sólbað og boltaleik þarna í rokinu í eftirmiðdaginn. Hittum Íslendinga sem eru búnir að vera hér um páskana og fara heim kl 1 í nótt.

Borðum á buffé-inu hér á hótelinu í kvöld sem er snarhvítt.

HB sofnar þarna um kl 18 og er vakinn í mat og mjög svo önugur yfir því.

Nær sér alls ekki á strik hendir sér eða mat í gólfið og er eins og hann verstur getur orðið.

Stemmingin við kvöldverðarborðið verður líka hálf glötuð og lítið borðað.

Hér er borgað jafnt fyrir alla fullorðna og börn en maður getur keypt einskonar voucher 12 euros á mann fyrir hlaðborð um kvöldið og morgunnmat daginn eftir sem við eigum þá inni.  Eftir matinn förum við á leiksvæðið sem er mjög fínt og gott til að geta fengið útrás.  Annars bara lesið verið í tölvunni og horft á myndir í kvöld.

Páskadagur  23. mars

Við vöknum snemma í Víðiberginu þennan morguninn. Hjörtur Björn sem sofnaði um 19:30 þegar við fórum frá Úthlíð í gærkvöldi svaf streit til morgunns og vaknaði á sama tíma og ég þegar ég klukkan hringdi kl 7:30 mjög glaður.

Mamma byrjar á því að fela öll 6 páskaeggin í húsinu áður en ég er vakinn og stýri leitinni hjá okkur bræðrum. HB er tekur fullan þátt og gerir það sem ég segi honum að gera. Við bræðurnir setjumst við borðið með eggin 2 og ákveðum að taka alla kalla (strumpa og geimverur) af eggjunum en borða bara Nóa Sírius eggin. Rétt nartað í þetta síðan er restin tekin með í poka út til Spánar. Málshættir voru góðir. HB fær "Bundin er barnamaður" (mjög lýsandi fyrir foreldra mína núna) og STH fær "Ástríkur er ólatur maður".  Svo er haldið áfram með pökkun frá því kvöldið áður sem og að koma öllum í ferðafötin.  Farangurinn er mikill 2 stórar töskur, ein aðeins minni, golfsett, flugfreyjutaska, STH með handtösku sem og Hjörtur. Stóra kerran og barnabílpúðinn. Eins gott við fáum stóran bíl á Spáni.

Upp úr kl. 10 kemur taxinn sem er stór og vel  búinn tækjum með sjónvarpi í öllum hornum. Röðin á Leifsstöð er að löng að venju en gengur vel. Í Fríhöfninni kaupum við sitthvora DVD myndina handa okkur bræðrum og fáum okkur að borða sveittan mat.

Pabbi skellir sér síðan á Garmin gervihnatta leiðsögutæki til að vera við öllu búinn þegar við förum að keyra í kvöldmyrkrinu á Spáni.

Við fáum hið vinsæla aftasta sæti í vélinni. Vélin er alveg full auk okkar eru þarna GR-ingar og Keilismenn á ferð að fara til Costa Balena, sama stað og við förum seinni vikuna, auk Breiðabliks fótboltastráka. Ferðin gengur bara ágætlega það þarf aðeins að hafa fyrir HB sem skoðar hverja bókina á fætur annarri á örstundu og púslar á álíka hraða og kallar svo "Búinn"

Labbar aðeins um og að lokum er hann að berjast við svefninn sem sækir á hann og hefur betur að lokum þegar pabbi hefur skipt við mömmu um sæti og slæst við hann.

Lendum í Jerez á Spáni kl. 18 á Spænskum tíma (17 á Íslenskum) þá er 15 stiga hiti og notalegt að koma út. Ólíkt vorlegra en það var deginum áður í Úthlíð þar sem enn er mikill snjór. Það tekur sinn tíma að ná í töskurnar og koma sér út. Við hittum Magga Birgis ofl sem sjá um golfskólann þarna úti og þeir taka golfsettið hans pabba – sem betur fer þar sem það hefði ekki komist snitti meiri inn í bílinn.

Rúmri klst. eftir að við lendum erum við lögð af stað á Bens bílnum troðfullum.

Keyrum fyrst um sinn með Garmin tækið á spænsku en náum fyrir mikla snilli mína í spönsku tekst  að breyta því yfir á ensku. Snildartæki sem er lofað megnið á leiðinni á meðan við jöplum á harðfisk þar sem við brunum áfram á 150 km hraða. Á lokasprettinum tekur tækið vitlausa stefnu eða við stillum það ekki nægilega vel þar sem það virðist ekki þekkja götuna sem hótlið okkar stendur við.

Förum við af þeim sökum of snemma út af hraðbrautinni og keyrum þrönga fjallavegi örugglega niður eins og 3 fjöll. Hringjum að lokum á hótelið og endum á réttum stað þar sem við förum að nota GPS tækið á símanum hans pabba seinni hlutann. Gott að hafa nægar græjur og verða sumir staðfastari að aldrei sé nóg af græjunum.  Við komjum á Hótel Myramar sem er íbúðahótel í Fuengirela í Malaga Costa del Sol um kl 23:00. Fáum tvær samliggjandi íbúðir 2 svefnherbergi, 2 klósett og 2 eldhús en ein stofa.

Sjónvörpin eru af smærri gerðinni en notast í neyð.

Hægt er að hita upp íbúðinrar sem gerist ekki þörf þar sem það er það heitt og ég með mín flísteppi til einskis eða hvað? Hjörtur Björn sem svaf bæði í flugvélinni og í bílnum er ekki á þeim buxunum að sofna strax. Vakir til ca. 3 um nóttina.


 


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurður Tómas Hjartarson
Sigurður Tómas Hjartarson
Siggi Tommi er Hafnfirðingur heldur með Liverpool, æfir fótbolta með FH, golfari og hefur gaman af lífinu.

Færsluflokkar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 506

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband