Florida - Halloween og fleira

Föstudagur 31. október – Halloween

Í dag er Halloween hér í USA eins og fram hefur komið. Það byrjar samt ekki almennilega fyrr en það byrjar að dimma. Við mamma byrjum daginn á því að fara út að hlaupa. Síðan tökum við pabbi svakalegan lærdómsdag og lærum úti á svölum.

Eftir það förum við aðeins á hafnabolta æfingasvæðið. Við förum svo í smá heimsókn til Íslendinganna til að forvitnast um Halloween. Það er einhver skemmtun í klúbbhúsinu en þangað fer víst bara gamla fólkið. Við skellum okkur í enn eina búðaferðina til að kaupa nammi því ef einhver bankar upp á hjá okkur verðum við líka að gefa nammi. Kaupum líka smá skraut svona til að sýna að við erum með í leiknum. Við mamma förum í Wal-Mart og þar er sviðin jörð og lítið eftir af Halloween dóti. Skellum okkur svo í búningana og við pabbi og Hjörtur Björn löbbum af stað. Svo er bara farið hús úr húsi þar sem einhver er heima, bankað og sagt: „ Trick or treat?“. Þá setur fólk nammi í fötuna okkar (annars myndum við hrekkja þau).  Þetta er alveg rosalega skemmtilegt og svo erum við að hitta aðra sem eru líka í búningum svo það er svaka stemming. Komum heim og gerum pásu. Pabbi fer að grilla en mamma tekur einn hring með okkur. Endum í Íslendingapartý þar sem fólkið opnaði bílskúrinn og allir eru í búningum. Greinilega mesta stuðið hjá Íslendingum hér á Halloween. Endum með fullan innkaupapoka af nammi þannig að við erum vel settir. Sumir gefa límmiða eða leir. Einn kall gaf okkur kex svo það er ansi mismunandi hvað maður fær. Sumt fólk er ekki heima en er með körfu fulla af nammi við dyrnar hjá sér. Aðrir eru greinilega heima en vilja ekki taka þátt í þessu. Flestir skreyta eitthvað en eitt húsið var sérstaklega mikið skreytt sjóræningjabátur í garðinum og allt fullt af sjálflýsandi hauskúpum sem virtust koma upp og niður eins og þær væru í sjó.

Komum heim beint i matinn grilluð svínarif sem við borðum úti. Hér á golfvellinum er Halloween golfmót um kvöldið. Þá er spilað með sjálflýsandi bolta og fólk búið að hengja á sig fullt af glowstick ræmum til að það sjáist. Virkar mjög skemmtilegt og við pabbi tölum um að halda svona mót heima. Horfum svo bara á sjónvarpið og borðum nammi. Skemmtilegur söngþáttur hér í sjónvarpinu á föstudagskvöldum sem heitir „Lock in those Lyrics“. Svolítið eins og Singing Bee þar sem keppt er því hvað fólk kann í textanum á lögunum.  Mjög skemmtilegur dagur og gaman að taka þátt í alvöru Halloween. Skil ekki af hverju þetta er ekki svona á Íslandi í staðin fyrir að fara á milli fyrirtækja eins og gert er á öskudag.

Fimmtudagur 30. október

Aftur komið gott veður. Pabbi og mamma fá smá frí frá okkur bræðrunum og fara í saman í stóra Outletið á meðan erum við hjá Stínu og Werner. Ég sef lengi frameftir.

Mamma og pabbi koma aftur um 3 leytið og þá fáum við ýmislegt ég fæ td. hlaupabuxur og Hjörtur Björn strigaskó með ljósi. Stína og Werner kveðja okkur og keyra aftur áleiðis til Alabama þar sem þau eru með hús.  Við förum seinni partinn í búningaleiðangur þar sem að Halloween er á morgunn. Förum í K-Mart þar sem okkur pabba fannst mesta úrvalið vera. Þar er allt á rúi og stúi í búningunum eins og fólk hendi þessu til og frá. Núna daginn fyrir var allt Halloween dót komið með 50% afslátt.

Pabbi og mamma kaupa sér fangabúninga, röndótta, ég fékk mér líka fangasamfesting appelsínugulan eins og þeir eru í hér í USA og bófa grímu við, Hjörtur Björn fékk sér riddarabúning sem hann kallar dreka Batman búning. Svo keyptum við líka sumo glímukappa búning sem er með viftu sem blæs inn í búninginn svo maður verður svona feitur eins og sumóglímukappi. Algjör snilld. Keyptum líka prumpublöðru búning sem mömmu langaði svo mikið í. Pöntum pizzu á Little Cesar á leiðinni heim og erum svo að prufa búningana í kvöld og að horfa á sjónvarpið.

 Miðvikudagur 29. október

Aðeins skárra veður í dag eða rétt í kringum 20 gráður. Við eigum bókaðan tíma í golfi kl. 12:45 með Stínu og Werner.  Byrjum á því eftir morgunnmat að fara í búðaferð aftur við kallarnir. Nú fer pabbi með Werner í búð til að kaupa Garmin staðsetningartæki. Svo kaupum við í matinn og bleyjur og þurrmjólk. Það er skrítið að bæði bleyjur og þurrmjólk er töluvert ódýrara á Íslandi en hér úti.  Förum svo í golfið þar sem við pabbi skorum á Stínu og Werner í Texas Scramble. Stína vill endilega að við drögum saman í lið en það vil ég alls ekki þar sem við pabbi erum svo góðir í þessum leik og ég vill bara vera með honum.

Tökum 18 holur sem eru mínar fyrstu 18 holur á stórum velli. Að sjálfsögðu vinnum við pabbi en Stína vill fá auka forgjöf þar sem þau eru samtals 100 árum eldri en við. Ég gef það sko ekki eftir. Í kvöld elda svo Stína og Werner kjötbollur með sultu og brúnni sósu.  Gott að fá venjulegan heimilismat. Vökum lengi frameftir og ég passa mig nú á því að fara ekki á undan einhverjum að sofa.

 Þriðjudagur 28. október

Nú er komið allt öðruvísi veður þar sem það hefur kólnað töluvert í nótt. Við mamma förum út að hlaupa og bara gott að hafa það aðeins kaldara í hlaupunum.

Pabbi fer í golf með köllum hérna á völl lengra í burtu og kemur ekki heim fyrr en um kvöldmat. Ég læri með mömmu eftir hlaupin. Stína og Werner hitta vini sína hérna úti að labba, hvílík tilviljun og bæði héldu að þau væru að sjá ofsjónir.

Í kvöld förum við svo út að borða á veitingastað sem heitir Texas de Brazil de. Þá fer maður fyrst á svona hlaðborð með allskonar forréttum og meðlæti síðan er maður með spjald sem er rautt öðru megin og grænt hinu megin. Þegar maður snýr græna koma menn inn með allskonar kjöt sem þeir skera á diskinn manns. Allt frá pulsum upp í fínustu steikur. Mjög skemmtilegt og öðruvísi. Nú er ég sko farinn að vaka frameftir hér í USA og sofa lengur. Vakna svona kl 10 á okkar tíma og þá er kl. 14 á Íslandi. Það er soldið skrítið.

 Mánudagur 27. október

Í dag koma Stína systir afa og Werner til okkar en þau eiga hús í Alabama þar sem þau eru og keyra í ca. 8 klst til okkar. Lögðu af stað í gær til að taka þetta í 2 bútum.

Við ætlum að fara í vatnagarðinn í dag og nýta passana okkar.

Fræðslukorn:  vitið þið að það eru um 60.000 manns í USA sem eru 100 ára eða eldri og svo segja þau í sjónvarpinu að 95 ára sé nýja 75 ára þ.e. líkurnar eru að aukast að fólk verði svona gamalt.  Fórum núna í Blizzard vatnagarðinn sem er líka Disney vatnagarður en þarna er allt í skíðaþema. Fannst þessi garður ekki eins skemmtilegur og Typhoon garðurinn.  Þarna voru mikið lengri biðraðir og ströndin mun minni. Við mamma fórum í frábæra rennibraut þar sem við sátum á bátum og fórum langa leið niður. Hjörtur Björn fór í fullt af litlum brautum. Vorum komin um kl. 11 og það var komið alveg rosalega mikið af fólki og erfitt að finna stæði. Erum komin heim um kl. 14 og Stína og Werner koma svo rétt seinna. Ég, pabbi og Werner förum svo í búðina að kaupa kjöt á grillið. Grillum heima í kvöld og borðum úti. Mamma fær afmælispakka frá Stínu og Hjörtur Björn fer þá að hágráta þar sem að hann er alveg viss um að hafa líka átt afmæli. Stína náði að redda því og var með barnabók með sér svo Hjörtur Björn varð alsæll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurður Tómas Hjartarson
Sigurður Tómas Hjartarson
Siggi Tommi er Hafnfirðingur heldur með Liverpool, æfir fótbolta með FH, golfari og hefur gaman af lífinu.

Færsluflokkar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband