Færsluflokkur: Ferðalög

Hvatningarverðlaun forsetans

15. april 

Forseti Íslands er í opinberri heimsókn í Skagafirði. Að því tilefni fékk Sigurgeir Ólafsson frændi minn ásamt 12 öðrum krökkum hvatningarverðlaun frá honum að vera svona frábær og klár. Á visi.is stendur þetta:
"Sigurgeir Ólafsson, 15 ára, Kálfsstöðum í Hjaltadal.
Hann er framúrskarandi nemandi sem sýnir sjálfstæði og ábyrgð, hvort heldur í íþróttum eða bóklegu og hefðbundnu námi."

Glæsilegt hjá honum og ég er mjög stoltur af honum Sigurgeir. Og líka af Bjössa frænda sem sækir okkur bræðurna í gæslu í dag þar sem mamma er að vinna og pabbi ekki heima. Annars allt við það sama hjá mér meiði mig aðeins í fætinum í dag og fer til hjúkrunarkonunnar en lagast þegar líður á daginn.  Pabbi fer til Florida í dag. Ekkert smá heppinn nýkominn úr sól og sumaryl og fer núna aftur í sólina. Honum er boðið út en mér þykir líklegt að hann fari eitthvað í golf. Hann kemur svo aftur heim á sunnudag kanski með eitthvað sniðugt frá USA. Hjörtur Björn kúkar svakalega hjá okkur Bjössa en við reddum því eins og öðru.
Höfum pizzu í kvöldmat og svo er bara lært og horft á skólahreysti og Simpsons


Úthlíðarferð

Laugardagur 12. april
Förum í sveitina mína í dag í Úthlíð. Kristján vinur minn fær að koma með mér svo það er frekar spennandi. Stoppum í Bónus í Hveragerði og kaupum nesti. Þegar við komum austur förum við í göngutúr skoðum nýja húsið sem afi er að byggja sem á að heita Glæsibunga. Þar voru Bjössi og Hörður á fullu að þrífa og fara að setja saman skápa. Svo fórum við með Kristján í fjárhúsið gáfum kindunum og hestunum mél úr lófanum á okkur og gáfum þeim svo meira hey og þau kunnu að meta það. Komum til baka angandi af rollulykt sem fólki finnst misgóð. Mér finnst hún ógeð en mömmu finnst hún æði. Afi og amma í Kópavog voru líka í sínum bústað sem er við hliðina á okkur og voru í stórhreingerningu. Mamma bakar vöflur og býður afa, ömmu og afa í Úthlíð í kaffi. Við Kristján finnum okkur spýtur við Glæsibungu og förum að tálga spýturnar.  Eftir kaffi förum við að spila.  Á meðan að pabbi og afi koma fyrir nýjum heitum potti á pallinn hjá okkur. Alveg eins pottur og er heima. Við mamma og Kristján spilum Gettu betur fyrir krakka og svo 70 mínútur spilið þar sem ég þarf að taka ógeðisdrykk og gubba honum á gólfið. Frábært spil.
Í kvöld eru svo allir í mat hjá ömmu í Kópavog sem er með hangikjöt einmitt uppáhalds matinn hans afa í Úthlíð sem er líka með okkur í mat. Förum í pottinn í kvöld með ömmu og að sjálfsögðu í pottleikinn okkar - Hver er maðurinn? Horfum svo á Strákana og tökum upp páskaegg í kvöld.

Sunnudagur 13. april
Vöknum snemma og þá er búið að snjóa mikið í nótt. Heldur áfram að snjóa í allan dag.
Það snjóar svo mikið og er svo blint að við leggjum ekki í það að fara út.  Afi í Úthlíð kemur í morgunnkaffi og talar um að þetta sé hrafnahret. En það kallast svona snjókoma sem kemur 9 dögum fyrir sumardaginn fyrsta og þá er hrafninn að verpa eggjum. Já þeir vita ýmislegt þessir gömlu bændur. Mamma og pabbi eru að þrífa og klára að græja málin. Við horfum á Strákana, púslum og erum í tölvunni. Komum í bæinn kl 16:30. Kaupum Kentucky í matinn og horfum á síðasta þáttinn í Mannaveiðar. Er hálf hræddur eftir þáttinn en fljótt að gleymast eftir heimalærdóm og lestur og svo Simpsons.


Kominn heim

Þá bloggar maður loksins aftur eftir að við komum heim.
Það var voða gott að koma heim.  Amma og afi í Kópavog buðu okkur í mat kvöldið sem við komum og Liverpool vann Arsenel 4-2. Hvað er hægt að hafa það betra?

Miðvikudagur 9. april
Veðurguðirnir ákváðu að láta snjóa í tilefni heimkomunnar svo það var ansi kalt að vaða snjóinn fyrsta skóladaginn.  Gaman að koma aftur í skólann fara á fótboltaæfingu og þetta venjulega.
Eftir fótboltaæfingu á miðvikudaginn voru vinir mínir Kristján og Steinar hjá mér í mat.

Fimmtudagur 10. april 
Ég fer heim með Steinari eftir skóla og svo fórum við á sundæfingu. Um kvöldið komu svo Dísa, Unnar og Valgeir í heimsókn.

Föstudagur 11. april
Ég var með vinahóp í dag. Kristján, Hugrún, Laufey og Ragnheiður komu til mín í vinahóp. Við fórum í pottinn, í leiki, grilluðum og höfðum gaman. Set myndirnar af því seinna inn. En svo fóru mamma og pabbi líka í 3D sónar í morgunn þar sem maður sér alvöru myndir af litla bróður sem er enn í maganum má mömmu. Alveg magnað. Horfi á Bandið hans Bubba í kvöld með pabba og HB og svo kemur líka Oddsteinn vinur pabba. Mamma fór út að borða með vinkonum sínum.


Ferðalok

8. apríl - þriðjudagur

Grenjandi rigning í dag. Förum í okkar síðasta morgunnmat í dag og svo aðeins í leikherbergið. Förum út á flugvöll um hádegi og eigum að fljúga kl 15:30 á spönskum tíma eða 13:30 að íslenskum tíma. Dagurinn í dag fer bara í ferðalag og verður strembinn. Hlakka til að koma heim og hitta ykkur öll og fara í skólann.

Ætla nú að halda áfram að blogga eitthvað þó það verði ekki daglega. Svo eigum við eftir að setja inn síðustu myndirnar frá Spáni. Svo haldið áfram að kíkja á þetta.

 7. apríl - mánudagur

Jæja, þá er síðasti heili dagurinn okkar hér á Spáni runninn upp og einhverra hluta vegna ákváðu veðurguðirnr að hafa rigningu þennan dag þegar við ætluðum að njóta sólarinnar eins og hægt er.  Í dag er líka síðasti golfdagurinn og að því tilefni er mót hjá golfhópnum sem pabbi keppir í. Hann lendir í leiðinda veðri og er kaldur og blautur þegar hann kemur til baka. Þokkalega ánægður með skorið sitt sem er 33 punktar. En við ákveðum að sleppa par 3 vellinum í dag vegna veðurs. Við bræður og mamma förum í morgunnmatinn. Hjörtur Björn gerir sig lítið fyrir og sest við borðið við hliðina á okkur meðan mamma er að finna til morgunnmat. Þar er búið að setja djús á borðið sem hann telur að sjálfsögðu að sé handa sér. Sjálfsbjargarviðleitni  og endalaus sjálfstæðisbarátta hjá drengnum.

Förum svo í innileikherbergið á eftir. Hirti Birni finnst það mjög skemmtilegt.

Erum bara inn á herbergi í dag að horfa á flakkarann, mamma að lesa og dunda okkur. Ég klára að lesa lestararbókina mína 17 bls 2x og geri svo tvöfalda orðabók þar sem ég skrifa orð úr textanum sem ég var að lesa án þess að hafa hann fyrir framan mig. Ég er mjög ánægður að hafa náð að klára bókina og gaman að geta sagt frá því þegar ég kem til baka í skólann. Um 4 leytið hleypum við hreingerningakellunum inn að þrífa og förum í bíltúr. Förum aftur í Las Dunas mallið þar sem við þurfum að kaupa okkur nýja ferðatösku. Taskan sem mamma var með á leiðinni út rifnaði í tætlur á leiðinni eða því sem næst og ekki hægt að nota hana á leiðinni heim. Keypti líka afmælisgjöf handa Kristjáni vini mínum sem hélt upp á afmælið sitt meðan ég var á Spáni. Svo fæ ég líka nýja tréliti. Fáum okkur aftur kebab sem er það besta sem ég hef fengið á Spáni. Eftir kvöldmat niðri er síðan verðlaunaafhending í golfmótinu. Pabbi fær ekki verðlaun en sennilega einn af 4-5 stigahæstu. Það varð smá slys hér í dag þegar einn  golfarinn datt á kaktus svo það þurfti að fara með hann upp á næsta sjúkrahús til að ná úr flísunum. Hefur líklegast ekki verið gott. Pökkun í kvöld og afslöppun. Mamma nuddar pabba sem er aumur eftir allt golfði og sofnar hann í miðju nuddinu.

 

SPA ferð og golf

6. april sunnudagur 

Aftur sólarlítill dagur í dag, svolítið rok en ágætlega hlýtt. Pabbi fer í golf um 10 leytið og spilar í dag með 3 bræðrum sem eru hér saman í ferðinni og eru víst með mikla keppni á milli sin. Kanski við bræður förum einhverntíma saman í golfferð þegar við verðum "kallar". Við hin erum bara í rólegheitum inn í herbergi fram að hádegi en þá förum við í göngutúr um svæðið og út í klúbbhús þar sem við fáum okkur að borða. Fínir hamborgarar þar og eins og matarlystin mín sé loksins aðeins að aukast hjá mér. Það er hægt að ganga hér stóran hring í krnig um svæðið sem við gerum og löbbum meðfram ströndinni á leiðinni heim. Hjörtur Björn sofnar á leiðinni heim svo við mamma höfum næði til að spjalla.

Þegar pabbi er búinn í golfinu förum við saman á par 3 völlinn og tökum 9 holur. Ég átti ekki eins góðan hring og í gær en svona er víst golfið gengur stundum vel og stundum illa. Ætla samt  að halda ótrauður áfram og fara í golf á morgunn.  Komum heim um sexleytið og þá eru mamma og Hjörtur Björn úti á leiksvæðinu. Hjörtur Björn ekkert í smá miklu stuði og hefur endalausa orku að fara upp og niður rennibrautina.  En nú er komið að skemmtilegu hjá okkur mömmu sem býður mér með sér í SPA-ið. Það var sko aldeilis skemmtilegt. Við fengum handklæði, skó og sundhettu áður en við fórum ofan í en það má enginn vera í þessum laugum og pottum með lafandi hár – svolítið skrítið og maður er ekki beint fallegur með þessa hettu. Förum fyrst ofan í laugina þar sem ég rétt botna. Hún er ótrúlega skemmtileg með allskonar sturtum, sætum, bekkjum með nuddi og straumi. Heiti potturinn er upphitaður sjór og líka með nuddi. Svo fer ég í steinagönguna, hleyp á steinunum í heitu og köldu vatni. Svo förum við í hvíldarherbergið og liggjum á heitum bekkjunum og svo kíkjum við á líkamsræktarstöðina þar sem ég fer aðeins að lyfta og í skíðagöngutækið. Langaði á hlaupabrettið en það var kona að hlaupa á því sem hljóp endalaust. Ansi skemmtilegt og við vorum í 2 klst. Fórum svo beint í kvöldmat þegar þessu var lokið. Hjörtur Björn eins og vant er í matsalnum en við erum farin að sitjast aftast hjá afrekshópnum þá er ekki eins augljóst hvað borðið okkar er alveg í rúst eftir hverja máltíð. Þjónarnir hér eru skemmtilegir. Ég var í Barcelona bol og sá sem tók á móti okkur í matsalnum tók í hendina á mér, var mjög ánægður með mig og hélt greinilega með Barcelona. En aðal þjónninn okkar var ekki eins ánægður með mig því hann hélt með Sevilla og sagði: "Barcelona, no good".  En samt gaf hann mér fulla hendi af brjóstsykrum eins og hann hefur gert áður. Þessi þjónn er að læra smá íslensku og strýkur alltaf um hausinn á Hirti Birni og segir: "Kisa – mjá."  Virðist svosem ekkert vera að læra mörg orð en þessi þjónn og einn íslenskur strákur skiptast á íslenskum og spænskum orðum, sniðug leið til að læra. Ég er að verða búinn með lestrarbókina mína en markmiðið var að klára hana og ég held ég muni ná því.


Meira golf og rólegheit

5. april laugardagur 

Í dag er mikill rólegheitar dagur hjá okkur. Við bræður og mamma sofum út en pabbi er mættur á teig kl 8:10. Um hádegisbilið förum við HB og mamma labbandi út á klúbbhús sem er við golfvöllinn og er ca. 1-2 km héðan frá hótelinu. Þar hittum við pabba og hollið hans. Pabbi er voða glaður því hann vann meðspilarann sinn, Óla Öder og úrslitin réðust á síðustu brautinni. Við fáum okkur að borða með hollinu í klúbbhúsinu. Hjörtur Björn borðaði nú lítið og hafði meiri áhuga á ketti sem gekk á milli borða að sníkja mat. Það er mjög mikið af villiköttum hérna og þeir sjást líka víða á golfvellinum.  Mikið verið að spjalla um golfið yfir matnum, hvað hver er með í forgjöf en ég er með 36 í forgjöf.

Það er ekki svo mikil sól í dag og smá vindur en ekkert kalt. Eftir matinn förum við upp á hótel þar sem við pabbi horfum á enn einn Liverpool – Arsenal leikinn sem fer 1-1 eins og síðast. Þessi leikur var ekki eins mikilvægur og ég var ekki einu sinni í Liverpoolbolnum mínum. Það var Peter Crouch kom Liverpool yfir á 42. mínútu. José Reina markvörður tók langt útspark, Yossi Benayoun fékk boltann og sendi áfram á Crouch sem lék á William Gallas og skoraði með föstu skoti frá vítateig í markhornið niðri, 0:1. Glæsilegt hjá mínum mönnum og við pabbi fórum aldeilis glaðir í golf,aftur á par 3 völlinn. Óli Öder vinur pabba spilaði með okkur en sonur hans er í afrekshópnum.

Golfið gekk bara vel ég paraði eina brautina þe. fór á 3 höggum og þegar forgjöfin er tekin með þá vann ég báða kallana, pabba og Óla.  Við vorum ekki komnir upp í herbergi fyrr en um kl. sex og þá höfðum við það bara gott, ég horfði á Simpsons. Mamma og Hjörtur Björn  voru búin að vera upp á herbergi og hafa það gott. Hjörtur Björn svaf í 4 klst. í dag. Förum í mat um 9 leytið en fyrst komum við aðeins við í Mini Club þar sem Hjörtur Björn fær útrás í boltalandinu og dótinu þar. Mikið af Spánverjum komið á hótelið núna um helgina og þeir eru ekki að koma í mat fyrr en um 10 leytið eða þegar við erum að fara. Það kallar maður sko kvöööldmat.  Það eru komnar myndir af mér í golfsveiflu inn á golfblogginu héðan frá Spáni og margir að segja það við mig hvað þetta hafi verið flott. Er að sjálfsögðu mjög ánægður með þessi comment sem hvetja mig til að æfa enn meir.  Sindri Jón frændi minn á afmæli í dag er 1 árs.  Sendum honum okkar bestu afmælisóskir héðan frá Spáni.

Það er bara vonandi að það fari ekki að rigna á morgunn svo maður geti tekið hring.


Nú er golfið byrjað!

4. april föstudagur

Frábært veður í dag. Eftir morgunnmat förum við pabbi á par 3 völlinn sem er hér á svæðinu. Alveg frábær völlur eins og sést hér á myndunum. Ég var bara nokkuð ánægður með skorið mitt þó ég hefði ekki parað neina braut en ég fór oft á 4 höggum og átti góð drive. Síðustu 2 brautirnrar spiluðum við með 2 strákum Degi og Pétri sem eru hér að æfa í afrekshópi GO. Ég stefni á að komast í þann hóp eins fljótt og ég get.

Frábært að komast loksins í golf og nú ætla ég að reyna að fara á hverjum degi það sem eftir er. Náði líka góðri mynd af mér með Röggu Sig. golfkennara sem er ein besta golfkona landsins. Pabbi er líka að blogga um ferðina og þar er hægt að finna fleiri golfmyndir og myndir af umhverfinu hér. Slóðin hjá honum er www.spann.blogcentral.is.

Þegar við komum heim sáum við snák á bílastæðinu og pabbi var ekki lengi að bregðast við náði í pútterinn sinn og drap hann með honum. Telur hann að nú sé pútterinn orðinn hinn mesti lukkugripur. Síðan lá kvikindið bara þarna frekar ógeðslegt – sjá mynd.

Eftir golfið förum við af stað í verslunarferð. Við förum ásamt Ingibjörgu konu hans Magga golfkennara tíl bæjarins Sanlúcar de Barrameda þar sem er glænýtt og risastórt "mall". Keyrum gamla sveitavegi og í gegnum lítil sveitaþorp á leiðinni þar sem tíminn hefur staðið í stað í langan tíma. Hér er mikið um vínrætarsvæði vínviðir út um allt og svo er líka verið að byggja upp hótel og leggja vegi út um allt. Vorum ca. korter á leiðinni, þá komum við í Las Dunas, glææænýtt mall, mjög flott með flottustu almennings bílastæðum sem hann pabbi minn hefur séð. Líklegt að þau séu skúruð og bónuð! Mamma missti það við að kaupa óléttuföt ég fékk líka einhver föt og svo líka nýjan leik í psp tölvuna mína, frábæran snjóbrettaleik sem ég leik mér að í kvöld. Fengum okkur svo að borða Kebab í mallinu sem mér leist ekkert á en svo var það rosa gott.  Birgjum okkur svo upp af drykkjum í supermarkaðinum og fórum heim. Kíktum út að sundlauginni þegar heim var komið.  Spánverjar hérna á hótelinu kasta sér út í þetta kalda vatn en þetta er of kalt fyrir okkur. Við Hjörtur Björn fáum báðir nýjar sundskýlur í dag og náum að vígja þær með því að setjast í barnalaugina og það er nú í það kaldasta fyrir okkur.  Nú er búið að setja inn nýjar myndir hér á bloggið, myndir héðan frá Costa Ballena og af mér á golfvellinum (sería;)

Náum að tengja flakkarann við sjónvarpið í kvöld eftir að það kom viðgerðarmaður frá hótelinu.

Svo tekur mamma okkur feðga aftur í nudd í kvöld. Mér finnst andlitsnuddið best.


Heilsan að skána

3. april fimmtudagur 

Jæja nú er heilsan öll að koma til enda vika síðan ég veiktist. Vakna í morgunn ekki með neinar kommur og ég allur hressari. Sleppum morgunnmatnum hér í morgunn og ég sef út. Að sjálfsögðu sól og blíða úti og einn besti dagurinn til þessa. Ekki snjókoma eins og á Íslandi og engir vörubílstjórar í mótmælaaðgerðum. Það hefði heldur ekki skipt máli því við þurfum lítið að fara. Pabbi mætir eldsnemma í golfið en við höfum það gott og sofum út en förum svo á röltið um hádegisbilið. Löbbum sem leið liggur í supermarkaðinn hér í þessu hótelhverfi. 1-2 km i hann. Löbbum sama pöddustíginn og í gær en hér er fullt af þessum feitu stóru pöddum. Mér líkar illa við þær og labba með lokuð augun. Kaupum drykki, snakk og kex í búðinni og með það förum við niður á strönd þar sem við borðum og höfum það gott. Við kaupum líka svona boltabyssu í búðinni og ég leik mér við að kasta boltanum eins langt og ég get út í sjó og hann kemur alltaf aftur. Hjörtur Björn er smá stund að átta sig á sjónum síðan fer hann að elta öldurnar út og hlaupa til baka eins og ég.  Hann hleypur til baka um leið og hann heyrir sjóhljóðið og hleypur svo til baka eins og skrattinn sé á eftir honum. Förum upp á hótel um hálf þrjú hittum pabba og förum svo út í hótelgarðinn  og leggjumst í sólina við sundlaugina sem er ísköld. Hjörtur Björn sofnar og við mamma erum að skipuleggja vinahóp sem við þurfum að halda fljótt eftir að við komum heim.  Mamma fer svo aftur í nudd og SPA í dag. Hún elskar það og líður svo vel á eftir.  Fer ma. í dásamlegt hvíldarherbergi þar sem maður liggur á einskonar brettum sem eru í laginu eins og hægindastóll og þessi bretti eru síðan heit eins og hitapoki. Við feðgar förum á meðan í leikherbergið hér. Allt glænýtt og flott og HB fer á kostum þar. Svo er það maturinn og Hjörtur Björn óður eins og alltaf í þessum matsal.

Við pabbi förum svo aftur niður eftir matinn og spjöllum við fólkið heyrum um gengi þeirra á golfvellinum í dag og svona.


Lífið á Costa Ballena

 Miðvikudagur 2. april.

Vakinn í morgunnmat en hef ekki mikla matarlyst. Pabbi átti rástíma kl. rúmlega 8 í morgunn svo hann var farinn í golf þegar við vöknum. Fyrsta golfið hans eftir rifbeinsbrotið og honum gekk bara bærilega. Var soldið stirður fyrri hringinn en síðan gerði þetta honum bara gott að vinda svona upp á líkamann. Komnar 3 vikur í dag síðan hann datt í hálkunni og rifbeinsbrotnaði. Hjörtur Björn fór á kostum eins og vant er í matsalnum henti í golfið og borðaði upp úr smjörinu og marmilaðinu og enn og aftur var borðið okkar útatað i í öllu því sem þau mamma höfðu smakkað.  Við förum svo í göngutúr niður á strönd sem er hér rétt hjá. Ólíkt því sem var á Costa del Sol þá voru fáir á ströndinni og engar búðir eða veitingastaðir enda erum við upp í sveit. Gengum með kerruna berfætt á ströndinni og ég fleytti kellingar, orðinn ansi lúnkinn í því. Veðrið mjög gott hlýtt og svolítil gjóla. Brakandi þurrkur eins og það heitir á sveitamáli sagði mamma. Á leiðinni heim sá ég þá ógeðslegustu pöddu sem ég hef á ævi minni séð og reyndar voru þær nokkrar svartar og feitar þarna á göngustígnum. Tók mynd af henni sem ég set inn.

Þegar pabbi kemur úr golfinu förum við í bíltúr í bæ hér rétt hjá sem kallast Roda.

Ku vera einn elsti bærinn á Spáni og einhvers staðar héðan er Sherry vínið upprunnið. Fáum okkur pizzu á pizzastað. Mjög rólegt í þessum bæ og sennilega allir að leggja sig í sinni síestu.

Góð pizza en samt hef ég bara mjög litla matarlyst og næ ekki að klára eina sneið.

Ís á eftir þannig að allir eru í góðum málum. Keyrum líka hér um hverfið og skoðum golfvöllinn. Mjög mörg hótel hér nálægt hvert öðru.  Matur í kvöld og Hjörtur Björn eignast nýjan vin, er orðinn hundleiður á okkur. Eldri maður sem tekur hann upp og labbar um með hann. Hann mjög sáttur með það að fá loks athygli í þessum matsal. Matarlystin að koma hjá mér fæ mér steik í kvöldmat.  Spennandi hjá okkur pabba í kvöld þar sem að Arsenal og Liverpool eru að keppa í meistaradeildinni. Við fóurm í veðmál. Ef Liverpool vinnur sem ég trúi þá fæ ég 5 evrur. Ef Arsenal vinnur þá fær mamma 5 evrur. Ef það er jafntefli þurfum við mamma að borga pabba sitthvora evruna en hann býst við jafntefli. Út af leiknum borðuðum við snemma til að ná bestu sætunum á barnum hér niðri og náum bestu sætinum í salnum.  Ég er að sjálfsögðu í Liverpool happabolnum mínum og barþjóninum finnst það ætti að standa Torres á bakinu á bolnum. Mamma fer upp með Hjört Björn sem er búinn á því eftir lítinn svefn í dag en hann sofnar síðan fljótt svo mamma getur haft kósy. 

Þá er leikurinn búinn hann fór 1:1 eins og pabbi hafði giskað á. Við mamma skuldum honum því samtals 2 evrur og allir eru sáttir. Margir að horfa á leikinn hérna, mikil stemming og flestir héldu með Liverpool.

Liverpool jafnaði á 26. mínútu. Steven Gerrard braust inní vítateiginn vinstra megin og sendi boltann inná markteig þar sem Dirk Kuyt renndi sér á boltann og skoraði, 1:1.  Liverpool og Arsenal keppa svo aftur á laugardaginn svo þetta er bara að byrja.

Þriðjudagur 1. april

Kominn 1. april og ég gerði ekkert aprilgabb. Lífið er í miklum rólegheitum hér á Hotel Elba á Costa Ballena. Ég er vakinn í morgunnmatinn sem er til kl 10 þannig að maður sefur ekkert út hérna ;) Mjög margt í boði í morgunnmat en samt hafði ég enga lyst.

Hér er mjög flott leikherbergi fyrir krakka – Mini Club en það er því miður læst og verður ekki opnað var sagt í lobbýinu. Vonandi fáum við lykil af því síðar. Erum bara í rólegheitum inn á herbergi og í sólinni á svölunum. Í kringum hádegi kemur 100 manna hópur af félögum úr Golfklúbbnum Oddi sem verður hér í golfi í viku. Ég fer með pabba á fundinn sem haldinn er fyrir hópinn og svo förum við upp á æfingasvæðið til að slá nokkrum boltum. Ég er alls ekki frískur og næ varla að klára 30 kúlur. Mamma er í sólbaði og Hjörtur Björn sefur lengi á svölunum hjá henni. Ég er slappur þegar ég kem inn á herbergi gubba og sofna svo í rúmlega 4 klst. enda var ég með 39 stiga hita. Mamma hefur það mjög gott og fer í Spa-ið hérna og í nudd. Allskonar laugar, með nuddi, gufur og sturtur og svo mjög gott nudd.  Rosa flott aðstaða hérna. Í herberginu okkar er svo líka nuddbaðkar sem mamma og Hjörtur Björn prufa í kvöld og gefa góða einkunn. Ég missi af matnum þar sem ég sef. Fæ lánaða nýja leiki í psp tölvuna hjá Bjössa vini pabba (núna vinur minn). Vakna um 10 leytið og vaki fram á nótt. Það er alltaf glatað að vera veikur en sérstaklega ömurlegt þegar maður er í útlöndum.

 

Spánn 2008 Costa Ballena

31. mars mánudagur 

Í dag sef ég út til kl 12:30 en þrátt fyrir það er hóstinn og kvefið ekki farið.

Þegar ég vakna eru mamma og pabbi búin að taka mest allt dótið saman og svo er bara farið upp í bíl og sagt bless við Costa del Sol. Keyrum í rúmlega 2 klst í mjög fjölbreyttu og fallegu umhverfi. Fyrst meðfram sjónum og svo upp í fjöllin og að lokum í gegnum grösugar sveitir þar sem kýr eru á beit og landslagið minnir minn á það þegar maður keyrir í gegnum Rangárvallasýsluna. Flestir eru að rækta eitthvað sem okkur grunar að sér einhver vinviður en það lýtur út eins og uppþornað og allir hafi gleymt að vökva.

Komum svo loks á áfangastað. Glænýtt og glæsilegt hótel sem var tekið í gagnið fyrir 3 vikum. Við fáum svokallaða Junior Suite þe. hótelherbergi með stofu þar sem eru 2 rúm fyrir okkur Hjört Björn. Allt mjög flott og risastórar svalir. Hrikalega næs. Förum í túr um hótelið á leiksvæðið sem er líka nýtt og flott og krakkasundlaugina sem við HB þurfum aðeins að prufa og endum á því að verða rennblautir og þurfum því að fara upp að skipta.  Í kvöld borðum við svo í matsalnum þar sem er hlaðborð og allskonar matur í boði. Þarna eru mest Íslendingar sem komu með sömu vél og við út og eru að fara heim á morgunn. Þetta lýtur allt saman glæsilega út leikjtækjasalur með þythokkí fótboltaspilum og billjardborðum. Ég hlakka síðan til að taka upp golfkylfurnar mínar með pabba. Sennilega kíkjum við á par 3 golfvöllinn á morgunn.  Fann þessa frábæru mynd á netinu sem tekin var á Liverpool-Everton leiknum í gælr Gerrard stekkur hér hátt upp.

Gerard stekkur 30 mars


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurður Tómas Hjartarson
Sigurður Tómas Hjartarson
Siggi Tommi er Hafnfirðingur heldur með Liverpool, æfir fótbolta með FH, golfari og hefur gaman af lífinu.

Færsluflokkar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband